Færsluflokkur: Bloggar

Ein dugleg...

Ég get ekki talist hafa flotta fætur.
Þeir eru flatir og breiðir eins og á önd. Enda hefur mér ekki lánast að ganga á mjóum skóm eða himinháum hælum. Ekki svo að skilja að mig hafi langað til þess, en hæfileikann vantaði líka. Svo fyrir allmörgum árum tóku bífur mínar upp á þeim fjanda að útvíkka sig enn frekar og stóru tærnar fóru að skekkjast. Þessu hefur í gegnum tíðina fylgt töluverður sársauki, mismikill og stundum verða hlé á. En alltaf byrjar það ferli aftur og aftur og að lokum fékk ég nóg og hitti minn elskaða bæklunarlækni, Guðna Arinbjarnar, eða Garinbjarnar eins og hann heitir í símanum mínum. í marslok tók hann vinstri fótinn minn í gegn og nú er ég með flottasta vinstri fót sem fyrirfinnst. Sá hægri er ekki kominn efst á forgangslistann minn, enda er ekki sniðugt að fara strax aftur í ferlið sem ég hef verið að fara undanfarnar vikur, því það krefst þess að ég leggi töluvert á þann fótinn sem situr hjá. Í mínu tilfelli yrði það sá nýviðgerði og manneskja sem er allt of þung á ekki að ofbjóða nýlagaða fallega fætinum sínum.
Það undarlega var, að á meðan ég hökti um á hækjum eða gekk á jarkanum, fékk ég aldrei verk í hinn fótinn. Nú er ég aftur farin að finna til þar og hlakka mikið til að losna undan því. En þangað til get ég notið þess að stikla um túnið mitt og er aftur farin að slá það sjálf. Í sumar hefur bóndi minn verið meira og minna erlendis og ekki til staðar í sláttinn, svo að bróðir hans, Jón Ingi, ásamt Gunsu systur minni hafa sinnt mér í einu og öllu. Þökk sé því heiðurspari. Í dag sló ég svo alla lóðina sjálf og á bara eftir að raka. Sólin skín og ég er alltaf sætust, líka á fótinn.


Ha-ha-ha--

Á „prófíl" myndinni við bloggsíðu mína kemur fram að ég sé „alltaf sætust".
En þó að mér finnist það athugasemd við hæfi, er ekki víst að allir séu mér sammála. Ég get fullyrt að maðurinn sem ég sá í Bónus fyrir klukkustund, fengi hláturskast ef hann ætti að bera saman þessa mynd og mig augliti til auglitis. Ég var semsagt að versla í Bónus og þegar ég kom að afgreiðsukassanum, fór ég auðvitað að tína vörur upp á bandið. Í miðjum klíðum varð mér litið upp og á mann í næstu biðröð. Hann var í meira lagi hlákulegur á svip og horfði á mig kvalinn af niðurbældum hlátri. Ég er ekki mikill stærðfræðingur, en þarna var ég fljót að reikna út hvað olli líðan mannsins. Ég er í léttri sumarblússu í góða veðrinu og þegar ég beygði mig niður í innkaupakörfuna eftir hverjum hlutnum á fætur öðrum, blasti innihald blússunnar við blessuðum manninum. Það þætti svosem ekki fréttnæmt, nema fyrir þær sakir að hálfgömlu blöðrurnar mínar, sem loftið er dálítið farið að síga úr, dingluðu frjálsar og óháðar innan í blússugopanum þar sem umbúðirnar eru í hvíld.
Ég lagaði mig aðeins til og lauk svo innkaupunum. Stúlkan sem afgreiddi mig var farin að glotta ríflega, eiginlega bara hlæja, því að ég fékk svo mikið hláturskast að ég mátti hafa mig alla við að kyngja flissinu og koma fyrir eins og siðmenntuð manneskja. Svo er ég þeirrar náttúru, að ef ég byrja að hlæja, á ég oft erfitt með að hætta því aftur. Þannig var ég í dag og á leiðinni heim úr verslunarleiðangrinum hló ég áfram og varð að taka ofan gleraugun, því að móðan á þeim byrgði mér meira sýn en tárin. Samferðafólk mitt í umferðinni hefði haft af mér miklar áhyggjur ef ég hefði ekki litið í aðra átt þegar einhverjum varð það á að líta til mín. Heim komst ég og hló þar áfram, en nú er ég búin að strjúka framan úr mér, þrífa gleraugun og flikka upp á ástandið.
Og ég er „alltaf sætust".


Kim eða Kim

Víða um heim er til fólk sem heitir Kim. Í sumum löndum er Kim karlmaður, í öðrum er Kim kvenmaður. Mannanafnanefnd hefur stundum gert góða hluti, t.d. þegar hún hafnar erindum fólks sem vill gefa börnum sínum einhver ónefni sem verða ekki annað en stórir baggar á berendunum þegar þeir vaxa úr grasi. En svo virðist sem úrskurður nefndarinnar sé geðþóttaákvörðun hverju sinni, því að einnig hafa orðið til mörg undarleg og andstyggileg nöfn sem samþykkt hafa verið sem mannanöfn. Ef Blær hefur ýmist verið  karlmanns eða kvenmannsnafn í gegnum söguna, hvað er þá að því að slíkt sé áfram ?
Ég er ekkert endilega sammála því og vildi ekki heita Blær nema ég væri karlmaður, en mín skoðun á mannanöfnum er alls ekki betri en annarra. Ég vona bara að hún Blær fái að heita Blær og það verði sett í þjóðskrá.


mbl.is Blær í mál við Ögmund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forpokaða fyrirbæri

Já, ég segi það enn og aftur, forpokaða fyrirbæri, þessi kaþólska kirkja


mbl.is Hjónaband eða dauði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í gær

Í gær var góður dagur hjá mér.

Ég skrapp í leikskólann minn og naut þar blíðviðris og barnaskara á árlegri sumarhátíð. Auk þess að fylla húsið, garðinn og grænmetisgarðinn okkar af fólki, stóru og smáu, tókum við á móti heilsufánanum, en við fengum nýverið vottun upp á að vera 20. heilsuleikskóli landsins. Að þessu sinni var ég bara gestur á staðnum, þar sem ég hef ekki vinnu fyrr en á mánudag eftir 8 vikna hlé. Þessar 8 vikur hafa verið misjafnlega skemmtilegar, allar samt skemmtilegar, því að mér leiðist eiginlega aldrei. Að vísu var ég farin að eigra svolítið um í aðgerðarleysi síðustu dagana, því að bóndi minn var í vinnuferð í tæplega hálfan mánuð, akkúrat þegar ég var orðin þokkalega göngufær og gat gert eitthvað af viti. En nú er semsagt allt að komast í rétta rútínu og ég er m.a.s. búin að kaupa sumarblóm. Og þá ber svo við, að við nennum ekki alveg að fara út að pota þeim niður. Við höfum svosem morgundaginn til þess og svo byrjar alvaran. Jibbííí, ég hlakka til Wink

En aftur að gærdeginum. Ég fékk fjári góða upprifjun á félagsskap leikskólakvenna minna, því að við fórum saman út að borða og síðan heim til einnar úr hópnum. Þar var spáð í spil og bolla og heilmikið í lífið og tilveruna. Svo var kjaftað og klæmst....nei, við erum ekki grófar konur. En við hlógum mikið og hátt. Og þá er mér ekkert að vanbúnaði, mæti galvösk í vinnu eftir helgina og rifja upp hvað börn eru yndislegar verur.

LIFIÐ HEIL  Smile


Góður dagur

Þegar ég vaknaði, skein sól á skafheiðum himni og veðrið lofaði of góðu fyrir fólk eins og mig, sem vill ekki of mikið af þessum gula, góða hnetti. Þið megið samt ekki misskilja mig, ég er elskusátt við veðrið og tilveruna.

Ég er líka í góðri sátt við allt sem hent hefur það sem af er degi.
Ég byrjaði á því að glíma við útskriftarkjólinn sem ég er að sauma á „skábarnið mitt". Hann virðist ætla að verða bara hin fallegasta flík og ég er montið uppmálað. Best að segja ekki meira strax, kjóllinn er alls ekki tilbúinn enn.
Svo skaust ég yfir í Heiði að sækja skrifborðsstól sem ég keypti fyrir lítinn pening. Ég bjóst ekki við að neinn væri heima, sem reyndist rétt, en stóllinn stóð úti á palli, eins og ég vissi fyrirfram. Ég tók hann og er rétt að vona að ég hafi ekki farið húsavillt og STOLIÐ stól frá einhverjum. Í þessum skrifuðu orðum sit ég á umræddum stól, sem ég vona að sé ekki ránsfengur -og hann er hin besta mubla til ásetu. Ef einhver í Brúnuhlíð - annar en Helga Pelga - saknar stólsins síns, má vitja hans hjá mér Blush

Í gær hafði ég samband við Dekkjahöllina og þar fékk ég svo góðar undirtektir við þjónustubeiðni minni, að ég hlakkaði beinlínis til að skreppa þangað í dag. Og ég varð ekkert fyrir vonbrygðum. Móttökurnar birtust í mörgum fallegum brosum frá enn fallegri karlmönnum sem allt vildu fyrir mig gera. Þeir réðu mér heilt og sáu til þess að ég verði peningunum mínum vel og heppilega. Svo sinntu þeir bílnum hennar Völu minnar af kostgæfni og sendu mig svo á góðan stað með hann í hjólastillingu. Hjá Kraftbílum hitti ég enn einn fallegan karlmann sem tók á móti mér með einn eitt brosið og lofaði mér stillingu á góðu verði. Áður en ég draujaði mér heim aftur, skrapp ég í Bakaríið hjá Bónus í Hlíðunum og þar afgreiddi mig kornung stúlka. Maður hittir stundum fólk sem virðist leiðast stórkostlega í vinnunni, en þarna mætti mér enn eitt sólskinsbrosið í dag. Þessi stúlka var svo innilega glöð og kurteis, að mig langaði helst til að vera bara í bakaríinu áfram. Enda stóðst ég ekki mátið þegar ég sá broskarla í borðinu...Ég keypti tvo.

Nú ætla ég að halda áfram með útskriftarkjólinn og fara svo á starfsmannafund. Það er enn eitt tilhlökkunarefnið, því að ég hef verið frá vinnu í nokkrar vikur vegna aðgerðar, en er að fara aftur í leikskólann minn eftir helgi.  JIBBÍÍÍ !!

GÓÐAR STUNDIR


Af hverju svona vægur dómur ?

Hvaða andskotans vettlingatök eru þetta ? Það þarf ekki að hafa fyrir því að dæma ofbeldismenn, ef þetta er útkoman. Bara sleppa þessu glæpaliði og brosa til þess.
mbl.is Eiginmaður bjó við ógnarstjórn í 41 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ,æ,æ

Verra þætti mér ef parmesanostaskortur herjaði á heiminn. Gott að ég er vel birg.
mbl.is Ostar urðu skjálfta að bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandinn færist til

Ég gleðst auðvitað fyrir hönd þeirra sem þarna gætu eygt úrbætur og hætt að óttast að vera allt í einu á götunni. En það liggur við að ég fagni ekki, því að mér dettur helst í hug að þessar aðgerðir geri fátt annað en að færa vandann af einum stað yfir á annan. Þeir sem nú fá vaxtabætur, geta átt von á því að þær lækki verulega eða falli alveg niður. Þar með er hætta á að margir sjái ekki lengur björgunarhringinn sem hefur fleytt þeim áfram með herkjum og það getur orðið til þess að fleiri og fleiri missi húsnæði sitt. Og þá fjölgar þeim sem þurfa á húsnæðisbótum að halda,svo að vitleysan fer bara í hring og ekkert sparast í þjóðarbúinu. Í besta falli gerist ekkert af þessu og ég vona það auðvitað, en ég verð bara að viðurkenna að ég er of bölsýn til að sjá þetta jákvætt til lengdar. Legg ég svo á og mæli um að ég hafi kolrangt fyrir mér.

Hins vegar þætti mér ekki verra að sjá leiguíbúðakerfi á borð við það sem tíðkast víða erlendis, þar sem fólk getur leigt alla sína ævi, kjósi það svo. Ég veit ekki hvernig slíkt kerfi gengur fyrir sig og er hrædd um að það gengi ekki hér í okkar litla samfélagi, en mikið held ég að það gæti létt á sálarlífi hálfrar þjóðarinnar.


mbl.is Vaxtabætur gætu lækkað mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki er öll vitleysan eins

Ætli ég færi ekki með veggjum frekar en að vekja á mér athygli með endurgreiðsluvæli, væri ég uppvís að svo mikilli heimsku að trúa því að skór einir og sér gerðu mig granna eða flikkuðu upp á minn feita rass. Hitt er svo annað mál, að ef ég ætti svona skó og notaði þá til að hlaupa eða þjálfa mig á annan hátt, væri ég vís til að leggja af eða fá stinnan þjó.


mbl.is Blekktu neytendur með skóauglýsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband