Ha-ha-ha--

Á „prófíl" myndinni við bloggsíðu mína kemur fram að ég sé „alltaf sætust".
En þó að mér finnist það athugasemd við hæfi, er ekki víst að allir séu mér sammála. Ég get fullyrt að maðurinn sem ég sá í Bónus fyrir klukkustund, fengi hláturskast ef hann ætti að bera saman þessa mynd og mig augliti til auglitis. Ég var semsagt að versla í Bónus og þegar ég kom að afgreiðsukassanum, fór ég auðvitað að tína vörur upp á bandið. Í miðjum klíðum varð mér litið upp og á mann í næstu biðröð. Hann var í meira lagi hlákulegur á svip og horfði á mig kvalinn af niðurbældum hlátri. Ég er ekki mikill stærðfræðingur, en þarna var ég fljót að reikna út hvað olli líðan mannsins. Ég er í léttri sumarblússu í góða veðrinu og þegar ég beygði mig niður í innkaupakörfuna eftir hverjum hlutnum á fætur öðrum, blasti innihald blússunnar við blessuðum manninum. Það þætti svosem ekki fréttnæmt, nema fyrir þær sakir að hálfgömlu blöðrurnar mínar, sem loftið er dálítið farið að síga úr, dingluðu frjálsar og óháðar innan í blússugopanum þar sem umbúðirnar eru í hvíld.
Ég lagaði mig aðeins til og lauk svo innkaupunum. Stúlkan sem afgreiddi mig var farin að glotta ríflega, eiginlega bara hlæja, því að ég fékk svo mikið hláturskast að ég mátti hafa mig alla við að kyngja flissinu og koma fyrir eins og siðmenntuð manneskja. Svo er ég þeirrar náttúru, að ef ég byrja að hlæja, á ég oft erfitt með að hætta því aftur. Þannig var ég í dag og á leiðinni heim úr verslunarleiðangrinum hló ég áfram og varð að taka ofan gleraugun, því að móðan á þeim byrgði mér meira sýn en tárin. Samferðafólk mitt í umferðinni hefði haft af mér miklar áhyggjur ef ég hefði ekki litið í aðra átt þegar einhverjum varð það á að líta til mín. Heim komst ég og hló þar áfram, en nú er ég búin að strjúka framan úr mér, þrífa gleraugun og flikka upp á ástandið.
Og ég er „alltaf sætust".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Já þú ert alltaf sætust...

Jónína Dúadóttir, 9.7.2012 kl. 19:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband