Gáruð fortíð

 

Ég fékk nokkur orð send í gestabókina mína frá GÖNSÓ, góðum förunaut frá saklausu árunum mínum.  GÖNSÓ þessi á rafhlaðinn páfagauk sem aldrei hefur hátt nema ef eigandinn kýs fuglagargan.  Ég er eins og önnur gamalmenni, ef ég heyri eða sé eitthvað skemmtilegt, minnir það gjarnan á eitt og annað frá fyrri tíð.  Að þessu sinni sé ég ljóslifandi fyrir mér páfagaukana okkar sem þáðu gott atlæti eigenda sinna og skitu svo yfir þá að launum.

Það var lán fyrir GÖNSÓ að heimsækja mig aldrei í Strandgötuna, því að þar var sannkallað fuglager um tíma og það gekk sko ekki fyrir rafhlöðum, nei, ónei.  Upphaf fuglaeignar fjölskyldunnar var, að stelpurnar okkar fengu, eftir tiltölulega litlar fortölur, páfagaukana Skræk og Skonsu. 

Þessi litli fiðurfénaður tók upp á þeim fjanda að unga út eggjum í tvígang.  Í fyrra skiptið verpti Skonsa sjö eggjum og úr fimm þeirra komu ungar, hver öðrum fallegri og skemmtilegri.  Eins og foreldrarnir, flögruðu þessar skítamaskínur um gjörvallan svefnherbergisganginn á efri hæð hússins, átu matinn sinn og höfðu iðulega gluggaáfellur og myndaramma í eftirrétt.  Og ekki vantaði dinnertónlistina hjá þeim. 

Skonsa var þeirrar náttúru, að hún taldi það heilaga skyldu sína að fá sér reglulega göngutúr innundir flíspeysuna mína. Þá byrjaði hún í hálsmálinu, tók svo á rás niður í ermi og spígsporaði þar góða stund áður en hún dreif sig aftur á bak eða niður á maga. Ég man eftir X-files þáttum þar sem einhver kvikindi iðuðu undir húð söguhetjanna og mér er nær að halda að ég hafi litið þannig út þegar Skonsa var á sinni kvöldgöngu. Það var undir hælinn lagt hvenær og hvar hún kom svo út. Þá átti hún það til að setjast á gleraugun mín, kíkja á hvolfi inn um „gluggana" og rífast við mig.

Ungarnir fimm fengu allir sæluvist hingað og þangað um bæinn og húsið varð ögn hljóðara.  En ekki lengi....  Litlu hjónin ólu upp þrjá unga í lotu nr. tvö.  Matur-Skítur-Fasteign / Fasteign-Skítur-Matur.  Þannig var lífið um stund, en auk þess varð Skonsa, sem alltaf hafði verið vargur, alveg umturnuð í vonsku.  Hún misþyrmdi karli sínum og við þurftum að aðskilja þau.  Að lokum gekk þetta ekki lengur, Skrækur slasaður upp á hvern dag og meiðslum okkar hinna fjölgaði ört. 

Endastöð Skræks og Skonsu var Safírstræti, þar sem þau stigu af og flögruðu á annars konar vængjum síðasta spölinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband