Í startholunum

Loftið er rafmagnað.  Sögusviðið er bæjarhlaðið á Goldfinger.  Litlar, berrassaðar stelpur bíða á ráslínu, þar sem Ásgeir Davíðsson heldur startbyssu á lofti.  Hann hleypir af og stelpurnar spretta úr spori eins og hindir yfir grund.  Enda liggur mikið við, konur og karlar bíða með tungurnar niður á nafla og spennan er gífurleg.  Hjörðinni er beint að inngangi Goldfinger og þangað rennur hún með gleðiþyrstan hópinn á hælunum.  Litlu, berrössuðu stelpurnar finna sín pláss og taka sér stöðu.  Nú er sko hægt að fara að skemmta sér.  Loksins.

En ekki er öllum skemmt.  Minni hluti bæjarráðs Kópavogs er í fýlu.  Honum líkar ekki að vita af þessum stelpum dillandi berum botnunum framan í áhorfendur. Hver veit hvað getur gerst ??

Sögum fer af því að á Goldfinger sé mikil spilling á bak við tjöldin og þar fari eitt og annað fram sem ekki þolir dagsins ljós.  Ef satt er, þykir mönnum auðvitað súrt í broti að staðurinn skuli fá rekstrarleyfi.  Hins vegar er greinilegt að fleiri trúa því að ekkert ljótt sé þarna aðhafst og vonandi er það bara rétt úr því leyfið fékkst endurnýjað. 

Og þá er bara næst á dagskrá að „skemmta sér og gera hitt" í fullri sátt við bæjarráð Kópavogs.


mbl.is Goldfinger má bjóða upp á nektardans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sektuð fyrir að hlýða ekki lögreglu

Einu sinni komst ég í pínulítið kast við lögin.

þá var ég stödd í Nice í Frakklandi og hafði leigt mér vespu til að ferðast um sveitir landsins með skólasystkinum mínum.  Ferðin gekk að óskum og við fórum víða.  Við byrjuðum reyndar á því að lenda næstum því í löggunni í Mónakó, en þangað fórum við í leiðinni.  Við höfðum tjóðrað vélfáka okkar saman á fremur óheppilegum stað og þegar við ætluðum að hleypa þeim á ný, var lögreglan að vappa í kringum þá og greinilega að bíða eftir knöpunum.  Við settumst á bekk hinum megin við götuna og biðum í drjúga stund þangað til öllu var óhætt og lögðum svo á flótta, því að okkur skildist að það væri ekkert gamanmál að lenda í lögreglunni í Mónakó, jafnvel ekki þó um smámál væri að ræða.

Daginn eftir fór ég til að skila mínum fáki á leiguna, en villtist.  Hitastigin voru farin að telja fimmta tug og ég orðin framlág og sveitt.  Ég kom að rauðu ljósi og renndi mér upp að kantsteini, tók af mér hjálminn og reyndi að ná andanum.  Kom þá lögregluþjónn, benti mér eitthvað og veifaði og ég taldi víst að hann væri að kalla mig til sín.  Ég færði mig nær, eiginlega yfir stöðvunarlínuna með 2 cm af framdekkinu og það nægði löggumann.  Hann setti upp embættissvipinn sinn og ætlaði að tugta mig til.  Þar sem ég hafði einnig heyrt að franska lögreglan væri erfið, gleymdi ég, mér til hagræðingar, hverju einasta orði sem ég kunni í frönsku og talaði bara íslensku.  Lási lögga varð forvitinn og fór að spyrja.  Ég varð að passa að skilja hann ekki og varð tómari á svip en venjulega, þó að það sé nú varla hægt.  Að lokum kom ég honum í skilning um að ég væri frá Íslandi og hann varð svo upp með sér að vita að þar væri kalt og að höfuðborgin héti Reykjavík, að annað hvort gleymdi hann að sekta mig eða þá að hann langaði að vera mér góður, blessuðum eskimóanum.

Síðan hefur mér bara ekki tekist að lenda í löggunni, en broskallinn í kassanum setti upp skeifu eitt sinn þegar ég var að flýta mér upp Þórunnarstrætið.  Það kostaði mig 15.000 krónur og ég sá eftir þeim.


mbl.is Sektuð fyrir að hlýða ekki lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótorhjólaslys

Mér þykir vægt til orða tekið að segja að hjólin hafi skemmst talsvert, ef myndin sem fylgir fréttinni er frá slysstað.  Fátt á þeirri mynd minnir á mótorhjól.
mbl.is Mótorhjólaslys á Reykjanesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tískusýningastúlkur

eru yfirleitt með mikla mjaðmasveiflu og margar þokkalega skreflangar.  Ætli þær séu valdar til starfans eftir kynlífsreynslu ?

Ég minni, eins og margar íslenskar dúllur, á gamlan, bússuklæddan karlskarf þrusandi í kargaþýfi.  Hvað segir það um kynlíf mitt ?


mbl.is Göngulagið kemur upp um G-blettinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvort okkar er meira gamaldags ?

Bónda mínum getur gramist hversu gamaldags ég er.  

Hann á ættingja austur á landi og þegar dætur okkar voru litlar, fengum við okkur NMT síma til að fullkomna öryggisstuðul fjölskyldunnar, þar sem við vorum oft á ferð um landið með þær í ýmsum veðrum.  Ég var bara þokkalega ánægð með frammistöðu mína þegar mér var kennt á þennan nýtísku -og hágæðagrip.  Ég lærði í snatri að svara og nánast jafn snarlega að hringja úr símanum.  Þannig notaði ég hann nokkuð lengi.  Dag einn þótti mínum manni tími til kominn að kenna mér á alla aðra „fídusa" símans og hóf kennslustundina.  En það var sama hvernig hann hamraði á hlutunum, ef ég var svo glögg að ná áttum um stund, leið ekki á löngu þar til ég hafði gleymt því aftur og það þurfti sífellt að vera að segja mér til.  Þetta leiddist bónda mínum til lengdar og þar kom, að það fauk heldur betur í hann.  Hann hreytti því í mig að réttast væri að ég hypjaði mig aftur í torfkofann minn, ég væri best geymd þar.  Ég lét mér nægja að hlæja innra með mér í það skiptið, en hann fær hlutdeild í þeim hlátri í dag. 

Ég var svosem ekkert að rifja þetta upp næstu árin, en ég kemst ekki hjá því nú orðið.  Í hvert sinn sem ég geng um húsið okkar öskrar minningin á mig úr hverju horni og skúmaskoti í formi safngripa húsbóndans og mér leiðist ekkert þegar ég velti því fyrir mér hvort okkar sé nú meira gamaldags......

                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                              snjór o.fl 026   012


???

Ég lendi oft í því þegar ég hringi í ýmsar stofnanir og fyrirtæki, að ég skil ekki viðmælendur mína. 

Í dag lenti ég tvisvar sinnum í því að vita ekkert hvað við mig var sagt í símann.  Fyrst hringdi ég í sölufyrirtæki og fékk samband við símsvara sem ég skildi mætavel, en þegar ég hafði ýtt á tölustaf til að fá samband við einhverja deild, svaraði mér ungur karlmaður.  Þegar ég hafði borið upp erindið hefur hann trúlega sagt mér að hann gæfi mér samband við aðra deild, en hvað deild hef ég ekki hugmynd um, því að ég skildi ekki tafsið í honum.  Ég fékk samband áfram, en komst aldrei að því hvert, því að ég var trufluð í símtalinu og þurfti að hætta, enda var ég númer ellefu og hafði ekki tíma til að bíða.

Nokkru seinna þurfti ég að hafa samband við peningastofnun.  Mér var svarað þokkalega skýrt, en þegar ég ýtti á takka til að fá samband við ákveðna deild, lenti ég í því sama og fyr í morgun.  Ég þekkti nógu vel til, til að vita hvert ég fékk samband, en engu að síður er það alvarlegt mál ef viðskiptavinur skilur ekki þann sem á að teljast rödd fyrirtækis. 

Eitt sinn, er ég lenti í því að ná ekki því sem viðmælandi minn sagði í síma, endurtók hann aftur og aftur á sama ógnarhraða, með sömu undarlegu áherslum og sama tafsinu, þannig að ég gafst upp á endanum og sagði já takk, ekki veit ég þó fyrir hvað ég var að þakka.

Í guðanna bænum, þið sem talið inn á símavélar af þessu tagi, gerið það þokkalega skýrt. 

Hafið þið einhvern tíma hugleitt af hverju sagt er:  ÞÚ ert kominn í samband við....vinsamlega BÍÐIÐ, rétt eins og þér fjölgi við að komast í samband.....


Ég beið þín lengi, lengi

Fyrir dyrum stendur Akureyrarvaka og Kvennakór Akureyrar á að syngja í miðbænum. 

Ég syng með kórnum og við mætum á æfingu til að koma á koppinn laginu sem flytja á.  Æfingin gengur vel og allar náum við að tileinka okkur lagið í hvelli, sem er eins gott, því að við höfum ekki mikinn fyrirvara og höfum aldrei sungið þetta áður.  Önnur æfing í miðri viku, en ég kemst ekki vegna vinnunnar.  Allt í lagi, ég renni bara í gegnum þetta heima og læri mína rödd í hvelli. 

Við mætum á laugardagskvöldi á æfingastaðinn okkar, rennum í einum grænum í gegnum lagið, röltum síðan í bæinn og söfnumst saman framan við Sporthérann, en þar eigum við að standa syngjandi þegar Ástargangan fer hjá. 

Allar erum við mættar vel fyrir tilskilinn tíma og ætlum sko ekki að láta hanka okkur á þessu fyrirbæri sem tröllríður öllu þjóðfélaginu, ÓSTUNDVÍSI.  En sá löstur er landlægur og ekki síst akureyrskur.

Við reynum að fylgjast með svo að við verðum tilbúnar þegar að okkar atriði kemur, en ekki bólar á Ástarvagninum.  Fólk er að safnast saman og bíður eftir að heyra okkur syngja.  Það er gaman að sjá hve margir hafa áhuga á að heyra í okkur og við vonum að enginn þurfi að bíða lengi, lengi.  En ekkert gerist.  Einhver er með síma, hringir og fær að vita að töf verði á.  Við bíðum lengi, lengi þangað til einhver nennir þessu ekki og hringir aftur.  Enn er töf.  Við bíðum lengi, lengi og vonum að nú fari allt að gerast.  Loks er okkur tjáð að Ástarkakan sé uppétin og gangan hafin.  Enn bíðum við lengi, lengi og loksins sést Ástarvagninn í enda götunnar.  Við erum löngu búnar að stilla okkur upp og kveikja á kertum til að auka á stemminguna.  Stjórnandinn okkar telur í og við byrjum að syngja:  Ég beið þín LENGI, LENGI, mín liljan fríð.

En fókið sem beið svo lengi, lengi er löngu farið eitthvað annað.


Ekki er öll vitleysan eins

Þessi frétt hefur að sjálfsögðu ratað í franska fjölmiðla.  Í íslensku sjónvarpi er svona frétt textuð, þar sem fatlaður á í hlut.  Mér hefur alltaf þótt það frekar klén hugsun að halda að fatlaðir hafi einungis áhuga á fréttum um fatlaða.  Af hverju eru ekki allar fréttir textaðar ?  Kann að vera að RUV hafi ekki nógu rúm fjárráð til að gera slíkt, en það mætti spara í einhverju sem minna máli skiptir, eins og því að hafa útsendara á Hróarskelduhátíð eða í hringiðu stríðs einhvers staðar í Afríku.  Það er svo ótal margt bruðlið sem kemur í veg fyrir að þarfir hlutir skili sér.  Fréttin um blinda manninn rifjar upp fyrir mér skemmtiþátt þar sem Laddi ekur staurblindur um á Volkswagen bjöllu og rekur blindrastafinn út um hliðarglugga sér til glöggvunar. Ef ég væri yngri en 20 ára ( það munar mjög litlu ), segði ég trúlega ÉG ELSKA LADDA.


mbl.is Blindur Frakki sektaður fyrir ölvunarakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur hann þá efni á að fá sér bíl ?

Það er von að Gísli Marteinn reyni eftir megni að næla sér í auðfengin laun á meðan hann er í námi, ef myndin sem fylgir fréttinni vísar í efnahag hans.  Hann ætti kannski bara að halda sig við hjólið og láta þeim eftir störfin sem vegna nálægðar sinnar við vinnustað hafa tök á að mæta.
mbl.is Gísli Marteinn fær launahækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó,ó,ó,,,

Ég sem var búin að skipuleggja nýtt og áhyggjulaust líf !!
mbl.is Vann tæpar 66 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband