Af köttum og fleiri kynjaverum

Það blés heldur óþyrmilega á okkur í nótt.  Það söng og kvein í þakmæni og marraði í sperrum og gróður lá meira og minna flatur á lóðinni hjá okkur og við horfðum vorkunnaraugum á hin hálfstöndugu tré sem við höfum gróðursett síðustu 3 árin.  Þau voru líka lárétt.  Allt lauslegt var sett í skjól og þvotti bjargað af snúrum.  Þegar farið var með tíkina út að pissa fyrir nóttina, æddi hún stefnulaust í hringi og forðaði sér svo inn með skottið á milli fóta....ómigin !!  Pinch

Öðru máli gegndi um kattarfjandann.  Þegar nokkur hundruð kílóa flykki geta fokið í roki, er ekki að spyrja að örlögum eins kattar, komist hann á stjá í svona veðri.  En kisan á heimilinu var ekki á þeim buxunum að halda sig heima þó veður geisuðu grimm.  Hún æddi glugga úr glugga og emjaði látlaust.  Sem hefði svosem ekki truflað okkur að ráði nema fyrir þær sakir að kisan sú opnar alla glugga.  Og ekki nóg með það, heldur eru gluggarnir þeirrar gerðar, að þeir opnast upp á gátt og út í náttúruna og í vindi standa þessir glerflekar út og vísa því sem næst til himins.  Þeir færu líka í þá áttina ef vindkviða næði þeim.  Því var brugðið á það ráð að loka kisuna frammi í bílskúr.  Þar er reyndar einn opnanlegur gluggi, en ég þóttist hafa girt fyrir hann á öruggan hátt, hafði enda gert það oft áður með fínum árangri.  Sama aðferð var notuð og hingað til hafði dugað, þ.e.a.s. sokkaupphengi krækt á klinkuna þannig að kötturinn kemst ekki að henni til að opna.....hélt ég. 

En Adam var ekki lengi í Paradís.  Það ætlaði kötturinn Mollý ekki heldur að vera.  Klók, eins og kettir eru, lagði hún til atlögu við gluggann.  Ég var hætt að vakta kvikindið og brá því heldur þegar loftþrýstingur breyttist skyndilega í húsinu og allar hurðir skulfu í fölsum.  Ég stökk fram í bílskúr, en þar var svartamyrkur.  Glugginn stóð upp á gátt og gardínan barði húsið utan.  Gamla trixið mitt hafði ekki komið að notum að þessu sinni.  Og kisu var hvergi að sjá.  Ég sá hana fyrir mér fljúgandi á sokkagræjunni eins og norn á kústskafti.  Ég varð að vonum skelkuð, því að ég er nokkuð háð þessu kafloðna kvikindi í kattarlíki.  En þegar ég kveikti ljósið, lá þessi litli asni á gólfinu og þóttist engan þátt eiga í uppákomunni.  Það tók mig nokkra stund að finna lausn á þessu furðulega vandamáli, en eftir að það tókst, get ég ekki lofað því að glugginn verði opnaður aftur á augnabliki.

Ég lýsi hér með eftir hvítu sokkaupphengi úr plasti.  Síðast vissi ég af því siglandi hraðbyri í átt að Húsasmiðjunni í Hörgárbyggð.

Góðar stundir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fóru nokkuð sokkar með? 

SGÞ (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 19:31

2 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Nei, SGÞ, en einn bolur lagði af stað af snúrunni fyrr um kvöldið og Dísin hljóp hann uppi.  Skömmu seinna fórum við mæðgur út og þegar við komum aftur heim, fauk þessi sama Dís af bílaplaninu, datt á svell og rann á bakinu út á götu við mikinn fögnuð móðurinnar. 

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 17.11.2008 kl. 19:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband