Fyrir þig, SGÞ

 Vinkona mín og frænka, SGÞ, sagði um daginn að gamlar færslur væru leiðinlegar til lengdar, svo nú ætla ég að skemmta konunni með smávegis lesefni.  Ég settist eitt sinn niður og skrifaði bók, ef bók skyldi kalla.  Hún er enn óútgefin og vera má að hún verði alltaf óútgefin.  Nema mér aukist dáð og ég ljúki verkinu....En hér kemur semsagt kafli úr þessari sk. bók:

Í sama húsi og Bóla var, rak Jóhannes verslun.  Jóhannes þessi var vinur allra og búðin hans var kölluð Jóhannesarbúð.  Þangað fóru krakkarnir í götunni og keyptu sér blöðrutyggjó frá Lindu og ýmislegt fleira.  Blöðrutyggjó var sérstaklega hannað til að blása úr því blöðrur.  En eitthvað hefur hönnunin farið forgörðum, því að harðara tyggjó var hvergi að fá og blöðrurnar úr því voru seigir hnallar sem storknuðu um leið og þeir komust út fyrir varir tyggjandans.  Jóannes seldi algengustu matvörur, dósamat og pakkamat af ýmsu tagi.  En Jóhannesarbúð var einnig full af rúsínum og öðru góðgæti sem féll misvel í kramið hjá viðskiptavinum.  Til dæmis þóttu Pétri rúsínurnar hans Jóhannesar algjört sælgæti.  Það komu tímabil þar sem Pétur mætti daglega til Jóhannesar til að fá hjá honum rúsínur.  Þá kraup hann uppi á afgreiðsluborðinu og lét Jóhannes bera í sig rúsínurnar og át af mikilli græðgi.  Fólk var vant því að Pétur væri á afgreiðsluborðinu og nærvera hans virtist ekki angra neinn, enda tók hann ekki mikið pláss þar sem hann kraup og undi hag sínum vel.  Pétur var köttur.

Kötturinn Pétur átti heima í Neðra Sundi númer 10A og var mikil persóna.  Hann fór sínar eigin leiðir og ein þeirra lá einmitt í Jóhannesarbúð.

Leiðir hans lágu reyndar víða og hann átti það til að elta fólkið sitt í skóla eða vinnu og þau voru ófá, skiptin sem einhver kom of seint á áfangastað þegar snúa þurfti við til að skila Pétri heim.  Samt kom það fyrir að hann slapp óséður alla leið þangað sem fólkið hans var að fara.  Það gerðist eitt sinn þegar hann elti Ónu í skólann.  Hún sá hann ekki fyrr en á skólalóðinni og þá var of seint að ætla að hlaupa heim með hann.  Óna brá á það ráð að stinga Pétri í skólatöskuna og ætlaði að freista þess að komast með hann heim á milli kennslustunda.  En Pétri leiddist dvölin í skólatöskunni og kallaði á hjálp.  Hann sagði mörg mjá og þau heyrðust auðvitað vel um alla skólastofuna, því að Pétur hafði mikla og fagra rödd.  Kennslukonan Hólmfríður heyrði neyðarópin eins og aðrir og vildi vita hvaðan þau bárust.  Óna varð niðurlút og dró kisa sinn upp úr töskunni.  En brúnin lyftist aldeilis á henni á ný, því að Hólmfríði þótti uppátæki kisa skemmtilegt og ákvað að nú væri kominn tími til að hafa svolitla kennslustund í dýrafræði.  Úr varð besta kennslustund vetrarins og Pétur og Óna voru vinsælust þennan dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert ekki bara sætust (þin orð reyndar ) heldur ertu skemtilegust líka Takk fyrir að setja inn færslu sérstaklega fyrir mig,  mikill heiður fyrir mig.   Bókin lofar góðu og ég hvet þig til að gefa hana út við tækifæri, en  þú þarft ekkért að tileinka mér bókina, nema þú endilega viljir   Vona að þið mæðgur hafið komst í gegnum daginn og þú komir hress og kát til starfa á morgun. Þín vegna vona ég svo að það snjói ekki mikið í nótt, svo þú þurfir ekki að moka frá útidyrunum og út að hliði.  ÉG opnaði fyrir þig í morgun og mokaði miiiiikið

SGÞ (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 20:14

2 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Æ, elsku SGÞ, þú ert alltaf svo góð við mig.  Takk fyrir að opna og moka og elda graut og taka á móti börnum og svara í síma og ....Ég mun moka ef með þarf  á morgun.  Allt gekk að óskum í dag og við vorum komnar heim um hádegisbil.  Snúllan mín var bólgin og hás og hrækti svolitlu blóði, en annars bara fín.  Ég mun hlusta á hana anda í nótt og koma syfjuð til vinnu á morgun, hahahaha.

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 27.10.2008 kl. 22:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband