2.6.2014 | 15:04
Skýringin fundin
Þeir sem þekkja mig, vita að það sem ég böggla saman í bundnu máli er annað hvort klám eða níð, nema hvort tveggja sé.
Þá sjaldan að mér tekst annað, verð ég misjafnlega ánægð með árangurinn. Sumt er nokkuð boðlegt (finnst mér sjálfri), annað ekki. Ég virðist oft enda í einhvers konar upptalningu, jafnvel í tímaröð sbr. Árstíðirnar sem ég setti saman þegar ég var ung og vitlaus, en tók fram til brúks fyrir 2 árum, muni ég rétt.
Ég held að ég sé komin með skýringuna á þessari áráttu minni. Hana má rekja til fallegs frænda míns, Sigurðar Antons Friðþjófssonar, sem lést langt fyrir aldur fram og skildi eftir sig mörg falleg ljóð. Eitt þeirra er í miklu uppáhaldi hjá mér og er einmitt sett fram í tímaröð eða ferli:
ÞÁTTASKIL
Ég lagði mig fyrir og leit í bók,
að lágnættisstund er hníga tók
og fugl ei á flugi sást.
Ég naut þess í friði hve nóttin var hljóð,
um nætur er dýrðlegt að yrkja ljóð
um lífið, æsku og ást.
Þá guðað var hljóðlega á gluggann minn.
Ég gestinum bauð að koma inn.
Andsvar ég óðara fékk:
Ég er vor þinnar ævi að kveðja í kvöld
því kominn er annar er heimtar sín völd.
Á brott þá gesturinn gekk.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.