Búa í hreysum

Ég er Eyrarpúki og skammast mín ekki fyrir það. Þegar ég var unglingur heyrði ég í fyrsta sinn orðsporið sem af hverfinu okkar fór þegar einhver spurði mig hvort ég ætti heima í fátækrahverfinu.

Síðar á lífsleiðinni bjó ég við Strandgötu til margra ára og var einmitt búsett þar þegar dætur mínar fæddust. Þær voru stutta stund á leikskólanum Iðavöllum og þar fór vel um þær, fyrir utan smáræði sem angraði þá eldri um hríð. Á þeirra dvalartíma voru Iðavellir í gamla húsnæðinu, sem mér þótti hið besta mál. En konustrá eitt sem starfaði á leikskóladeild bæjarapparatsins, taldi að Iðavellir væru í heilsuspillandi húsnæði og fann því allt til foráttu. Hún skrifaði um þetta í bæjarblaðið og meðal þess sem fram kom í pistli hennar var álit hennar á íbúðarhúsnæði á Eyrinni almennt. Mátti lesa út úr þeirri upptalningu, að við byggjum flest við arfaslakar aðstæður og ég upplifði lesturinn þannig, að henni þætti við í meira lagi „lásí". Hún lét eiginlega að því liggja að við værum frekar fátækur stofn. Ekki svo að skilja að það angraði mig, en mér þótti kerla taka fullstórt upp í sig. Hún hefur trúlega haft hag okkar fyrir brjósti, en ég las ekki annað en hroka út úr greininni.

Við bjuggum í mörg ár við Strandgötuna eftir að þessi grein birtist og okkur varð bara ekkert meint af því, enda bjuggum við í góðu húsi og héldum því vel við. 


mbl.is Eyrin er gettó Akureyrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Smábæjarbragur sem brýst út í því að nokkrar hræður lýsa vanþóknun sinni á hverfi sem aðrar nokkrar hræður búa í.

Hvernig er hægt að búa til svona misskiptingu í svona rosalegu fámenni?

Og hvað, mæta síðan hræðurnar úr Innbænum í messu á sunnudögum, fara á skíði í Hlíðarfjallinu sín og éta hrygg um kvöldið og tala illa um Eyrina?

Jón (IP-tala skráð) 9.4.2014 kl. 13:54

2 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Nei Jón, ég held nú ekki að fólk lifi eins og þú lýsir Innbæingum. Eyrin er bara ágæt eins og önnur hverfi bæjarins, húsin eru þó mörg hver komin til ára sinna. Innbærinn á sér einnig býsna gamalt húsnæði innan um nýrra. Fámennið á Akureyri er ekki lengur svo rosalegt eins og þú telur, en eflaust er alls staðar hægt að finna smábæjarbrag ef vel er leitað. Og ég gæti best trúað að smávegis spenna á milli hverfa þrífist víða um land. Það er bara skemmtilegt á meðan enginn hlýtur skaða af.

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 9.4.2014 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband