10.7.2012 | 12:13
Ein dugleg...
Ég get ekki talist hafa flotta fætur.
Þeir eru flatir og breiðir eins og á önd. Enda hefur mér ekki lánast að ganga á mjóum skóm eða himinháum hælum. Ekki svo að skilja að mig hafi langað til þess, en hæfileikann vantaði líka. Svo fyrir allmörgum árum tóku bífur mínar upp á þeim fjanda að útvíkka sig enn frekar og stóru tærnar fóru að skekkjast. Þessu hefur í gegnum tíðina fylgt töluverður sársauki, mismikill og stundum verða hlé á. En alltaf byrjar það ferli aftur og aftur og að lokum fékk ég nóg og hitti minn elskaða bæklunarlækni, Guðna Arinbjarnar, eða Garinbjarnar eins og hann heitir í símanum mínum. í marslok tók hann vinstri fótinn minn í gegn og nú er ég með flottasta vinstri fót sem fyrirfinnst. Sá hægri er ekki kominn efst á forgangslistann minn, enda er ekki sniðugt að fara strax aftur í ferlið sem ég hef verið að fara undanfarnar vikur, því það krefst þess að ég leggi töluvert á þann fótinn sem situr hjá. Í mínu tilfelli yrði það sá nýviðgerði og manneskja sem er allt of þung á ekki að ofbjóða nýlagaða fallega fætinum sínum.
Það undarlega var, að á meðan ég hökti um á hækjum eða gekk á jarkanum, fékk ég aldrei verk í hinn fótinn. Nú er ég aftur farin að finna til þar og hlakka mikið til að losna undan því. En þangað til get ég notið þess að stikla um túnið mitt og er aftur farin að slá það sjálf. Í sumar hefur bóndi minn verið meira og minna erlendis og ekki til staðar í sláttinn, svo að bróðir hans, Jón Ingi, ásamt Gunsu systur minni hafa sinnt mér í einu og öllu. Þökk sé því heiðurspari. Í dag sló ég svo alla lóðina sjálf og á bara eftir að raka. Sólin skín og ég er alltaf sætust, líka á fótinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.