8.4.2014 | 23:50
Búa í hreysum
Ég er Eyrarpúki og skammast mín ekki fyrir það. Þegar ég var unglingur heyrði ég í fyrsta sinn orðsporið sem af hverfinu okkar fór þegar einhver spurði mig hvort ég ætti heima í fátækrahverfinu.
Síðar á lífsleiðinni bjó ég við Strandgötu til margra ára og var einmitt búsett þar þegar dætur mínar fæddust. Þær voru stutta stund á leikskólanum Iðavöllum og þar fór vel um þær, fyrir utan smáræði sem angraði þá eldri um hríð. Á þeirra dvalartíma voru Iðavellir í gamla húsnæðinu, sem mér þótti hið besta mál. En konustrá eitt sem starfaði á leikskóladeild bæjarapparatsins, taldi að Iðavellir væru í heilsuspillandi húsnæði og fann því allt til foráttu. Hún skrifaði um þetta í bæjarblaðið og meðal þess sem fram kom í pistli hennar var álit hennar á íbúðarhúsnæði á Eyrinni almennt. Mátti lesa út úr þeirri upptalningu, að við byggjum flest við arfaslakar aðstæður og ég upplifði lesturinn þannig, að henni þætti við í meira lagi lásí". Hún lét eiginlega að því liggja að við værum frekar fátækur stofn. Ekki svo að skilja að það angraði mig, en mér þótti kerla taka fullstórt upp í sig. Hún hefur trúlega haft hag okkar fyrir brjósti, en ég las ekki annað en hroka út úr greininni.
Við bjuggum í mörg ár við Strandgötuna eftir að þessi grein birtist og okkur varð bara ekkert meint af því, enda bjuggum við í góðu húsi og héldum því vel við.
![]() |
Eyrin er gettó Akureyrar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)