Farinn

Jæja, þá fannst eigandi að blessuðum gestinum mínum.  Eftir þónokkrar vangaveltur og eftirgrennslan, fór heimasæta á rúntinn með aðkomupiltinn og spurði á bæjunum í kring.  Enginn kannaðist við kauða og hann fékk að kúra í fleti í bílskúrnum.  Það var honum ekki að skapi þegar loka átti inn í íbúðina.  Því fór hann á stjá og svaf úti þangað til rigningin varð honum um megn.  Þá grét hann um stund og var hleypt inn kl. 5 um morgun.  Hann slapp við bílskúrinn og svaf þar sem hann hneig niður, þreyttur og kaldur.  Í gær, 3 dögum eftir að hinn „nafnlausi", eldgamli hundur kom til að sniffa af tíkinni á bænum, fékk heimasæta loks botn í málið.  Og þá var hringt og eigandinn kom til að ná í óþægðarangann sinn.  Hann er sko ekki nafnlaus, heldur heitir hann Guttormur Gröndal, er nánast heyrnarlaus og blindur, en nefið leiðir hann þangað sem gott er að vera.  Í þessu tilfelli hjá okkar elskulegu lóða tík, sem fékk sinn skammt af heimsókninni og verður hugsanlega móðir eftir u.þ.b. 63 daga.

Ástarhjal hjúanna fór rólega fram og kötturinn á bænum undi sér vel við að fylgjast með.  Kisan sú er ekki að æsa sig yfir aðkomuhundum, ákveði hún að þeir séu velkomnir.  Hún lét sig ekki muna um að klofast yfir hann ef hann var fyrir henni og hann var ánægður með sambýlið við hana.  Á myndunum eru annars vegar latur köttur að fylgjast með aðkomuhundinum og hins vegar þessi ágæti aðkomu-Gutti í hádegishvíld.

Sæll, Voffi   Siesta


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband