26.12.2008 | 14:43
Long time, no blog
Ég óska blogglesendum gleðilegra jóla og allra heilla á nýju ári.
Ég hef verið mjög upptekin síðustu vikur og annar aðdáenda minna farinn að rukka mig um færslu. Nú hefur hægst um og ég get glatt þennan aðdáanda minn og reyndar hinn líka, því að nú er lag.
Fyrst ber að nefna að ég fór ásamt bónda mínum og dætrum til Reykjavíkur til að borða. Ekki svo að skilja að ekki fáist matararða á Akureyri, heldur drifum við okkur í grillveislu. Hingað til hafa Ausa og Bróðir Edmund haldið slíka veislu á Þorláksmessu og við því ekki komið því við að vera með. En að þessu sinni var átið mikla þann tuttugasta desember og því nægur tími fyrir okkur að bregða okkur suður. Við bættum þó einum degi framan á dagskrána og skruppum líka í útskriftarveislu nýstúdentsins í familíunni. Stúlkan sú var að vonum falleg og það var ljúft að sjá hana útskrifaða og geta fagnað með henni á tímamótunum.
Það var skotfæri á milli og ekkert sem gat tafið för okkar. Það er alltaf gaman að hitta gott fólk og þó að ég njóti mín best ein í myrkri...... var það hin mesta lyftistöng fyrir okkur öll að breyta út af vananum og skella okkur suður í tvo daga. En við þurftum að kveðja og halda heim, enda að koma jól og á jólum er ég best geymd heima hjá mér.
Þar sem ekkert drífur á daga mína í augnablikinu, þykir mér gott að sitja í góðum stól og lesa í bók. Ég fékk tvær bækur í jólagjöf. Önnur er um ljósmyndun og er mjög svo velkomin í mína eigu, þar sem ég hef ekki verið sérlega iðin við kolann hvað varðar myndavélina sem ég fékk á hálfrar aldar afmæli mínu fyr á þessu ári. Nú get ég farið á stúfana og fest á minniskort það sem fyrir augu ber og gert það ögn skár en áður. Ég hlakka til þessarar áskorunar og er nú farin að bíða spennt eftir að kvefið fari, svo að ég hafi heilsu til að miða og skjóta. Það er nefnilega svolítið kalt fyrir kvefaða í augnablikinu.
Á meðan ég bíð heilsunnar, les ég hina bókina sem ég fékk á þessum jólum. Það er sú nýjasta eftir Mary Higgins Clark. Ég safna bókunum eftir hana og á þær allar nema eina. Ég les þær með reglulegu millibili og er að því leitinu til eins og barn sem á góða teiknimyndaspólu, það horfir aftur og aftur.
Ég ber líka ábyrgð á því að heimasæturnar þurrkuðu tár af hvörmum á jólanótt, því að ég valdi og keypti jólagjafirnar þeirra. Það voru bækur sem koma út tárum á harðsvíruðustu mönnum, hvað þá ungum og gæðalegum stúlkum eins og dætrum mínum. Báðar þessar bækur eru endurminningar, bæði ljúfar og sárar. Ég fæ að lesa þær við tækifæri og reyni bara að muna eftir snýtuklútnum. Þeir eru svosem við höndina eins og heilsufarið er í dag.....
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.