Hvað varð um nágranna mína ??

Vestan við húsið mitt er tún.  Á sumrin eru þar hestar á beit og vinalegt gneggið í þeim berst mér í kyrrðinni á góðum dögum.  Oft er galsi í þeim og þá tekur undir þegar þeir hlaupa um og skvetta rössum með tilheyrandi frísi og gleðihljóðum.  

cvb (2)   cvb (4)    044

Þessir vinir mínir koma á vorin og fara á haustin, rétt eins og farfuglarnir.  Ég get ekki hugsað mér betri nágranna og mér líður aldrei betur en þegar þeir í bland við söng mófuglanna minna mig á hve ómetanleg náttúran er.  Þeir hafa góðan aðgang að vatni og vel gróið túnið þeirra er hin mesta paradís fyrir hross, auk þess sem eigandinn kemur iðulega með brauð til þeirra.  Í hólfi rétt þar hjá sem umrædd hross dvelja sumarlangt, hafa nokkrir hestar verið af og til, en þeir eru notaðir til útreiða.  Þeir eru í eigu sama fólks og á hluta hinna hestanna.  Á nýliðnu sumri hurfu þeir hestar úr hólfinu og sáust ekki aftur.  Ég var að velta því fyrir mér hvað orðið hefði af þeim, því að „reiðvertíðinni" var ekki lokið.  Svarið fékk ég fljótlega, en mér var tjáð að eigandinn hefði verið kærður fyrir illa meðferð á dýrum og að þau væru vanhaldin.  Mér fannst það ekki fyndið, en ég hló samt þegar ég heyrði þetta, því að þessi fallegu og mannelsku hross voru þvert á móti pattaralega og vel haldin að sögn dýralæknis sem leit á þau í framhaldinu.  Engu að síður flutti eigandinn þau á brott og þykir mér það leitt hans vegna og ekki síður mín vegna og tíkurinnar minnar, sem er góð vinkona hestanna.  Ég er svona að velta þessu fyrir mér núna, þegar vetur konungur er genginn í garð og vitað er að næstu mánuðina verða ekki nein hross á túninu og í hólfinu góða.  Vonandi fær eigandinn uppreisn æru, enda ekkert við æru hans að athuga.  Ég hlakka til næsta sumars og endurkomu vina minna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, þetta er alveg fáránlegt. Ég skil ekki hvernig einhverjum hefur dottið í hug að illa væri hugsað um þessa hesta. Ég vona að þeir komi aftur næsta vor...

Katrín (IP-tala skráð) 25.10.2008 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband