Hef ég þennan fjanda af ?

Ég er búin að vera sárlasin og vorkenna mér voðalega mikið.  Það verð ég að gera sjálf, því að enginn annar gerir það.  Þetta byrjaði á því að ég fann fyrir hæsi og kverkaskít á föstudaginn og fannst það bara skítt þar sem ég átti að syngja á útgáfutónleikum með kórnum mínum, honum KVAK.  Þetta var svosem engin nýlunda, en hingað til hef ég í versta falli misst af góðri æfingu þegar svona stendur á.  En semsagt, ég fékk hálsbólgu.  Tónleikar um kvöldið og það stefndi í að ég fengi ekki færi á að gera mig að fífli.  En það slapp til, ég hitaði upp með stelpunum, sem eru rúmlega sextíu á aldrinum 25 - 75 ára, eða þar um bil. 

Svo hófust tónleikarnir og úr barka mér komu enn þónokkur hljóð.  Ekki fögur, en ekkert svosem verri en vant er.  Tónleikagestir skemmtu sér hið besta og allt gekk án áfalla.  Okkur tókst vel til með flest og við vorum sjálfar ánægðar.  Stjórinn okkar, Jaan Alavera, brosti breitt og stoltið skein úr hverjum andlitsdrætti, enda fyrstu tónleikarnir sem hann stjórnar okkur.  En hann gerði það sko ekki einn, því að fráfarandi stjórnandi, Arnór Vilbergsson flaug sunnan úr landi til að vera með og láta kveðja sig með pompi og prakt.  Þeir félagarnir skiptust á að stjórna okkur og Arnór var einmitt að veifa framan í okkur skönkunum þegar ég öskraði eins og api og yfirgnæfði fagran flutning söngsystra minna.  Ég brosti afsakandi og þagnaði.  Tók svo undir með kórnum þegar lagið hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist.  Enginn virtist taka sérstaklega eftir þessu upphlaupi mínu, svo að ég ákvað að öskra aftur.  Það virtist ekki angra neinn, svo að ég gerði þetta í þriðja sinn - og fjórða - þegar við vorum klappaðar upp og sungum þetta sama lag.  En þá tók ein kórsystir mín og nafna undir og öskraði alveg jafn hátt og skerandi og ég.  Við fengum, ásamt auðvitað öllum hinum, gótt lófatak og hneigðum okkur að launum.  Það er réttast að ég geti þess að við áttum víst að öskra, því að við vorum að flytja frumskógarlag með viðeigandi „effektum", apakattalátum og hljómmiklum flutningi góðrar konu á háa C-inu, sem var reyndar það flottasta við lagið.

En, bíðum nú við, þetta var einhver útúrdúr, ég var að tala um heilsu mína í upphafi færslu....  Jæja, ég var orðin hás um það leiti sem þrjú lög voru eftir.  Apaöskrin rétt marði ég og það sem á eftir kom.  Svo lauk tónleikunum og flestir gestanna fóru heim.  Nokkrir fóru hvergi, heldur skemmtu sér með okkur yfir myndasýningu frá starfi og flakki kórsins.  Því næst var étið og drukkið og í lokin hófst söngur „off the record".  Þá lögðu raddbönd mín endanlega upp laupana og ég fór hvíslandi heim um nóttina.  Á laugardagsmorguninn hélt ég áfram að hvísla og það endaði með því að ég gat ekki svarað í síma eða nokkuð það sem krafðist róms yfirleitt.  Svo lagðist ég veik í koju, Sick alveg sárlasin og var óvinnufær fram á þriðjudag.  Röddin kom hikandi og að hluta til til baka og ég fór galvösk með stóru leikskólabörnin mín í heimsókn á elliheimilið Kjarnalund í gær.  Og hvað haldið þið ?  Ég þurfti að syngja með krökkunum og tala við hóp gamals fólks.  Trúlega hefur enginn heyrt helminginn af því sem ég sagði og söng, en við skemmtum okkur öll vel.  

Í morgun ætlaðist ég til þess að ég væri nokkuð hress, en nei, ónei, ég hóstaði eins og vélbyssa og geri enn.  En það sem verra var, ég var með svo mikinn hausverk að ég fór í huganum yfir það hvernig orða ætti tilkynninguna og hvað ég vildi helst láta syngja yfir mér dauðri.  Ég ákvað að fara í vinnuna og sjá svo til, en eftir tvær sterkar töflur og enn sterkara kaffi létti mér þónokkuð og ég stóð mína plikt án vandræða.  En eftir stendur, að ég er enn að hósta og snýta mér og nenni varla að hátta, því að þá magnast bara ósóminn.  Best að sauma bara svolítið meira.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hehe, æji greyið mamma mín. Má ég ekki bara vera veik heima með þér?

Katrín (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 13:45

2 identicon

Við værum góðar saman núna, myndum væntanlega ekki syngja mikið en gætum skrifast á eða notað tákn án tals    Fáðu þér töflur, hóstasaft, nefúða,  fjallagrasate, koníak,  heitan bakstur, eitthvað af þessu, allt saman  eða bara hvað sem þig langar í og hressir þig og kætir.   Nú eða hugsaðu um hvað verður gaman hjá okkur annaðkvöld og bara tilhugsunin gerir þig mun sprækari já eða enn veikari, þitt er valið....   Haltu svo áfram að sauma svuntur eða hvað það er sem þú ert að sauma.

 Annars ætlaði ég nú bara að kvitta til að segja hvað ég var glöð að lesa nýja færslu, hin var leiðinleg til lengdar,  var farin að halda að þú væriir í sálarkreppu og kæmir ekki orði frá þér.......    Njóttu lífsins, það gerir það enginn fyrir þig.

SGÞ (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 22:23

3 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Já, SGÞ, bíddu bara þangað til ég fer að tíunda hér á síðunni það sem fram fer hjá okkur í kvöld ( laugardagskvöld ).

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 18.10.2008 kl. 14:57

4 identicon

Ég bíð spennt, ég bíð spennt  

SGÞ (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 23:32

5 identicon

mikið var ég óheppin að hitta þig ekki á meðan þú gast ekki talað´hef aldrey vitað að það hafi komið fyrir áður. óheppin ég kv eyrarrós.

eyrarrós (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 18:03

6 identicon

mikið var ég óheppin að hitta þig ekki á meðan þú gast ekki talað´hef aldrey vitað að það hafi komið fyrir áður. óheppin ég kv eyrarrós.

eyrarrós (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 18:07

7 identicon

Vá hvað þetta er erfið ruslpóstvörn, barasta stærðfræði! Hahahaha. En ég skal alveg vorkenna þér kvefið, hundleiðinlegar svona pestir. Svo ert þú kona vel máli og söng farin og alger synd að hafa þig hása, en nú er þetta allt að koma. Sjáumst í fyrramálið, víst ekki í boði að bera fyrir sig lasleika þennan þriðjudaginn.

StellaSv (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 19:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband