8.9.2008 | 20:38
Sektuð fyrir að hlýða ekki lögreglu
Einu sinni komst ég í pínulítið kast við lögin.
þá var ég stödd í Nice í Frakklandi og hafði leigt mér vespu til að ferðast um sveitir landsins með skólasystkinum mínum. Ferðin gekk að óskum og við fórum víða. Við byrjuðum reyndar á því að lenda næstum því í löggunni í Mónakó, en þangað fórum við í leiðinni. Við höfðum tjóðrað vélfáka okkar saman á fremur óheppilegum stað og þegar við ætluðum að hleypa þeim á ný, var lögreglan að vappa í kringum þá og greinilega að bíða eftir knöpunum. Við settumst á bekk hinum megin við götuna og biðum í drjúga stund þangað til öllu var óhætt og lögðum svo á flótta, því að okkur skildist að það væri ekkert gamanmál að lenda í lögreglunni í Mónakó, jafnvel ekki þó um smámál væri að ræða.
Daginn eftir fór ég til að skila mínum fáki á leiguna, en villtist. Hitastigin voru farin að telja fimmta tug og ég orðin framlág og sveitt. Ég kom að rauðu ljósi og renndi mér upp að kantsteini, tók af mér hjálminn og reyndi að ná andanum. Kom þá lögregluþjónn, benti mér eitthvað og veifaði og ég taldi víst að hann væri að kalla mig til sín. Ég færði mig nær, eiginlega yfir stöðvunarlínuna með 2 cm af framdekkinu og það nægði löggumann. Hann setti upp embættissvipinn sinn og ætlaði að tugta mig til. Þar sem ég hafði einnig heyrt að franska lögreglan væri erfið, gleymdi ég, mér til hagræðingar, hverju einasta orði sem ég kunni í frönsku og talaði bara íslensku. Lási lögga varð forvitinn og fór að spyrja. Ég varð að passa að skilja hann ekki og varð tómari á svip en venjulega, þó að það sé nú varla hægt. Að lokum kom ég honum í skilning um að ég væri frá Íslandi og hann varð svo upp með sér að vita að þar væri kalt og að höfuðborgin héti Reykjavík, að annað hvort gleymdi hann að sekta mig eða þá að hann langaði að vera mér góður, blessuðum eskimóanum.
Síðan hefur mér bara ekki tekist að lenda í löggunni, en broskallinn í kassanum setti upp skeifu eitt sinn þegar ég var að flýta mér upp Þórunnarstrætið. Það kostaði mig 15.000 krónur og ég sá eftir þeim.
Sektuð fyrir að hlýða ekki lögreglu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Heima er best þú lætur bara Þórunnarstrætið eiga sig
stefán kristvinsson (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 20:54
Ertu ökufantur ?
núll (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 21:11
Neeeei.....
Anna Dóra Gunnarsdóttir, 9.9.2008 kl. 14:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.