3.9.2008 | 15:30
???
Ég lendi oft í því þegar ég hringi í ýmsar stofnanir og fyrirtæki, að ég skil ekki viðmælendur mína.
Í dag lenti ég tvisvar sinnum í því að vita ekkert hvað við mig var sagt í símann. Fyrst hringdi ég í sölufyrirtæki og fékk samband við símsvara sem ég skildi mætavel, en þegar ég hafði ýtt á tölustaf til að fá samband við einhverja deild, svaraði mér ungur karlmaður. Þegar ég hafði borið upp erindið hefur hann trúlega sagt mér að hann gæfi mér samband við aðra deild, en hvað deild hef ég ekki hugmynd um, því að ég skildi ekki tafsið í honum. Ég fékk samband áfram, en komst aldrei að því hvert, því að ég var trufluð í símtalinu og þurfti að hætta, enda var ég númer ellefu og hafði ekki tíma til að bíða.
Nokkru seinna þurfti ég að hafa samband við peningastofnun. Mér var svarað þokkalega skýrt, en þegar ég ýtti á takka til að fá samband við ákveðna deild, lenti ég í því sama og fyr í morgun. Ég þekkti nógu vel til, til að vita hvert ég fékk samband, en engu að síður er það alvarlegt mál ef viðskiptavinur skilur ekki þann sem á að teljast rödd fyrirtækis.
Eitt sinn, er ég lenti í því að ná ekki því sem viðmælandi minn sagði í síma, endurtók hann aftur og aftur á sama ógnarhraða, með sömu undarlegu áherslum og sama tafsinu, þannig að ég gafst upp á endanum og sagði já takk, ekki veit ég þó fyrir hvað ég var að þakka.
Í guðanna bænum, þið sem talið inn á símavélar af þessu tagi, gerið það þokkalega skýrt.
Hafið þið einhvern tíma hugleitt af hverju sagt er: ÞÚ ert kominn í samband við....vinsamlega BÍÐIÐ, rétt eins og þér fjölgi við að komast í samband.....
Athugasemdir
Þarna kom vel á vondan. Ég gerði mig seka um sams konar vitleysu og ég var að fjargviðrast út af í síðustu málsgrein. Á mér það til málsbóta að ég kom auga á delluna um leið og ég hafði birt hana og lesið.
Anna Dóra Gunnarsdóttir, 3.9.2008 kl. 15:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.