Ég beið þín lengi, lengi

Fyrir dyrum stendur Akureyrarvaka og Kvennakór Akureyrar á að syngja í miðbænum. 

Ég syng með kórnum og við mætum á æfingu til að koma á koppinn laginu sem flytja á.  Æfingin gengur vel og allar náum við að tileinka okkur lagið í hvelli, sem er eins gott, því að við höfum ekki mikinn fyrirvara og höfum aldrei sungið þetta áður.  Önnur æfing í miðri viku, en ég kemst ekki vegna vinnunnar.  Allt í lagi, ég renni bara í gegnum þetta heima og læri mína rödd í hvelli. 

Við mætum á laugardagskvöldi á æfingastaðinn okkar, rennum í einum grænum í gegnum lagið, röltum síðan í bæinn og söfnumst saman framan við Sporthérann, en þar eigum við að standa syngjandi þegar Ástargangan fer hjá. 

Allar erum við mættar vel fyrir tilskilinn tíma og ætlum sko ekki að láta hanka okkur á þessu fyrirbæri sem tröllríður öllu þjóðfélaginu, ÓSTUNDVÍSI.  En sá löstur er landlægur og ekki síst akureyrskur.

Við reynum að fylgjast með svo að við verðum tilbúnar þegar að okkar atriði kemur, en ekki bólar á Ástarvagninum.  Fólk er að safnast saman og bíður eftir að heyra okkur syngja.  Það er gaman að sjá hve margir hafa áhuga á að heyra í okkur og við vonum að enginn þurfi að bíða lengi, lengi.  En ekkert gerist.  Einhver er með síma, hringir og fær að vita að töf verði á.  Við bíðum lengi, lengi þangað til einhver nennir þessu ekki og hringir aftur.  Enn er töf.  Við bíðum lengi, lengi og vonum að nú fari allt að gerast.  Loks er okkur tjáð að Ástarkakan sé uppétin og gangan hafin.  Enn bíðum við lengi, lengi og loksins sést Ástarvagninn í enda götunnar.  Við erum löngu búnar að stilla okkur upp og kveikja á kertum til að auka á stemminguna.  Stjórnandinn okkar telur í og við byrjum að syngja:  Ég beið þín LENGI, LENGI, mín liljan fríð.

En fókið sem beið svo lengi, lengi er löngu farið eitthvað annað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég beið lengi lengi en gafst svo upp.   En ég heyri þinn fagra söng nánast daglega svo það kom ekki að sök, vona að það verði ekkért úr veikindum svo ég heyri þig syngja á morgun líka

SGÞ (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 16:59

2 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Ég verð að viðurkenna að ég er meira en lítið undarleg til heilsunnar, en ég kem á morgun.  Ég sagði við bónda minn elskulegan að ég væri annað hvort með lungnabólgu eða.... og hann botnaði.....að fá hjartaáfall.  Ég veðja á hvorugt og kem.

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 1.9.2008 kl. 19:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband