2.6.2012 | 15:58
Í gær
Í gær var góður dagur hjá mér.
Ég skrapp í leikskólann minn og naut þar blíðviðris og barnaskara á árlegri sumarhátíð. Auk þess að fylla húsið, garðinn og grænmetisgarðinn okkar af fólki, stóru og smáu, tókum við á móti heilsufánanum, en við fengum nýverið vottun upp á að vera 20. heilsuleikskóli landsins. Að þessu sinni var ég bara gestur á staðnum, þar sem ég hef ekki vinnu fyrr en á mánudag eftir 8 vikna hlé. Þessar 8 vikur hafa verið misjafnlega skemmtilegar, allar samt skemmtilegar, því að mér leiðist eiginlega aldrei. Að vísu var ég farin að eigra svolítið um í aðgerðarleysi síðustu dagana, því að bóndi minn var í vinnuferð í tæplega hálfan mánuð, akkúrat þegar ég var orðin þokkalega göngufær og gat gert eitthvað af viti. En nú er semsagt allt að komast í rétta rútínu og ég er m.a.s. búin að kaupa sumarblóm. Og þá ber svo við, að við nennum ekki alveg að fara út að pota þeim niður. Við höfum svosem morgundaginn til þess og svo byrjar alvaran. Jibbííí, ég hlakka til
En aftur að gærdeginum. Ég fékk fjári góða upprifjun á félagsskap leikskólakvenna minna, því að við fórum saman út að borða og síðan heim til einnar úr hópnum. Þar var spáð í spil og bolla og heilmikið í lífið og tilveruna. Svo var kjaftað og klæmst....nei, við erum ekki grófar konur. En við hlógum mikið og hátt. Og þá er mér ekkert að vanbúnaði, mæti galvösk í vinnu eftir helgina og rifja upp hvað börn eru yndislegar verur.
LIFIÐ HEIL
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.