Góður dagur

Þegar ég vaknaði, skein sól á skafheiðum himni og veðrið lofaði of góðu fyrir fólk eins og mig, sem vill ekki of mikið af þessum gula, góða hnetti. Þið megið samt ekki misskilja mig, ég er elskusátt við veðrið og tilveruna.

Ég er líka í góðri sátt við allt sem hent hefur það sem af er degi.
Ég byrjaði á því að glíma við útskriftarkjólinn sem ég er að sauma á „skábarnið mitt". Hann virðist ætla að verða bara hin fallegasta flík og ég er montið uppmálað. Best að segja ekki meira strax, kjóllinn er alls ekki tilbúinn enn.
Svo skaust ég yfir í Heiði að sækja skrifborðsstól sem ég keypti fyrir lítinn pening. Ég bjóst ekki við að neinn væri heima, sem reyndist rétt, en stóllinn stóð úti á palli, eins og ég vissi fyrirfram. Ég tók hann og er rétt að vona að ég hafi ekki farið húsavillt og STOLIÐ stól frá einhverjum. Í þessum skrifuðu orðum sit ég á umræddum stól, sem ég vona að sé ekki ránsfengur -og hann er hin besta mubla til ásetu. Ef einhver í Brúnuhlíð - annar en Helga Pelga - saknar stólsins síns, má vitja hans hjá mér Blush

Í gær hafði ég samband við Dekkjahöllina og þar fékk ég svo góðar undirtektir við þjónustubeiðni minni, að ég hlakkaði beinlínis til að skreppa þangað í dag. Og ég varð ekkert fyrir vonbrygðum. Móttökurnar birtust í mörgum fallegum brosum frá enn fallegri karlmönnum sem allt vildu fyrir mig gera. Þeir réðu mér heilt og sáu til þess að ég verði peningunum mínum vel og heppilega. Svo sinntu þeir bílnum hennar Völu minnar af kostgæfni og sendu mig svo á góðan stað með hann í hjólastillingu. Hjá Kraftbílum hitti ég enn einn fallegan karlmann sem tók á móti mér með einn eitt brosið og lofaði mér stillingu á góðu verði. Áður en ég draujaði mér heim aftur, skrapp ég í Bakaríið hjá Bónus í Hlíðunum og þar afgreiddi mig kornung stúlka. Maður hittir stundum fólk sem virðist leiðast stórkostlega í vinnunni, en þarna mætti mér enn eitt sólskinsbrosið í dag. Þessi stúlka var svo innilega glöð og kurteis, að mig langaði helst til að vera bara í bakaríinu áfram. Enda stóðst ég ekki mátið þegar ég sá broskarla í borðinu...Ég keypti tvo.

Nú ætla ég að halda áfram með útskriftarkjólinn og fara svo á starfsmannafund. Það er enn eitt tilhlökkunarefnið, því að ég hef verið frá vinnu í nokkrar vikur vegna aðgerðar, en er að fara aftur í leikskólann minn eftir helgi.  JIBBÍÍÍ !!

GÓÐAR STUNDIR


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtilegt bæjarfélag sem þú býrð í allir brosandi og þú endar bæjarferðina með því að kaupa tvo broskalla.! Voru þeir af holdi og blóði eða til átu,ma,ma,ma,maður bara spyr.? Gangi þér vel að ná heilsu.

Númi (IP-tala skráð) 31.5.2012 kl. 17:37

2 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Spyr sá sem ekki veit. Nei Númi, þeir voru ekki af holdi og blóði,blessaðir karlarnir, heldur súkkulaðikökur með gul, brosandi andlit. Það er býsna gaman að borða brosandi andlit, skal ég segja þér. Og takk svo mikið fyrir batakveðjuna, ég er að verða fín til heilsunnar. Að lokum: Ég kom heim undir miðnætti eftir mjög vel heppnað skemmtikvöld til styrktar Kisukoti á Akureyri. Ég á sjálf kisu og hef alltaf átt eina eða fleiri í senn. Það var hún Vala mín sem stóð fyrir þessari skemmtilegu uppákomu í kvöld og frumraunin hennar gekk eins og í góðri lygasögu. Hefðu mátt vera fleiri, auðvitað til að hala inn meira fé, en ekki síður til að fleiri fengju að njóta þess sem uppá var boðið í söng og gamanmálum. Ég fer brosandi að sofa.

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 1.6.2012 kl. 01:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband