Ég hló mikið og lengi.

Um nýliðna helgi var ég á landsmóti kvennakóra, sem haldið var á Selfossi. Þetta var alveg hreint frábært mót og allir skemmtu sér hið besta. Ég mætti á staðinn með mínum kór, sem er Kvennakór Akureyrar. Við höfum að undanförnu verið að æfa fyrir þetta mót og mættum svo galvaskar með upp á vasann sömu dagskrá og nokkrir aðrir kórar, ásamt því að draga úr pússi okkar eigið framlag, sem var tvö lög....eða eiginlega fimm. Okkar lög fluttum við á tónleikum á laugardeginum og aðrir kórar gerðu hið sama með sín lög.

Sunnudaginn 1. maí voru svo haldnir hátíðartónleikar, þar sem kórarnir fluttu fyrst dagskrá í fimm liðum, en sú dagskrá samanstóð af afrakstri helgarinnar í vinnusmiðjum. Að lokum sungu allir kórarnir, rúmlega sexhundruð konur, saman nokkur lög og það var stórkostlegt að taka þátt í því ævintýri.

En aftur að smiðjunum: Heima á Akureyri höfðum við æft þau lög sem tilheyrðu okkar vinnusmiðju og í smiðjunni hittum við hina kórana sem æft höfðu sömu lög. Við höfðum ekki langan tíma til að stilla saman strengi, en það gekk samt eins og í sögu og afraksturinn kom í ljós á sunnudagstónleikunum. Þrátt fyrir mikla vinnu og mikinn söng, gafst líka tími til að sletta úr klaufum og það gerðum við ósvikið í óvissuferð sem gestgjafar okkar, Jórukórinn á Selfossi, stóð fyrir. Ég hef aldrei skemmt mér eins vel í rútuferð og ég gerði í þessari vel skipulögðu óvissuferð. Við vorum varla lögð af stað þegar ég byrjaði að hlæja og ég hló meira og minna alla ferðina. Sá sem kippti svona vel í hláturtaugar mínar var leiðsögumaðurinn Bjarni Harðarson. Hann talaði nánast án afláts alla ferðina og hann sagði aldrei eitt ófyndið orð. Í þvílíkum orðsnillingi og hláturvaka hef ég ekki áður heyrt. Fyrir þessa ferð taldi ég þó að ég væri búin að heyra mestu fyndni sem á fjörur mínar ætti eftir að reka. Svo var ekki og ég er enn að jafna mig í andlitsvöðvunum og þindin er óðum að komast í fyrra horf.

Ég ætla ekki að rekja allt það sem við gerðum þessa skemmtilegu helgi, enda varla hægt nema að skrifa í skömmtum og því nenni ég ekki. Hins vegar ætla ég að segja ykkur frá því að konurnar í Jórukórnum voru stórkostlegar í alla staði og skipulagið var slíkt að ekkert - og þá meina ég EKKERT kom uppá sem kvarta þyrfti yfir. Með Jórunum í för voru eiginmenn þeirra, vinir og velunnarar, en af þeim eiga þær nóg eins og við er að búast. Það var ekki síður fyrir þeirra tilstilli að svona vel tókst til. En við stýrið stóðu sjálfar Jórurnar og sigldu fleyinu hnökralaust.

Það kemur í hlut Kvennakórs Akureyrar að halda næsta landsmót eftir þrjú ár og þó að við hlökkum mikið til, vitum við að það verður ekki hrist sísvona fram úr ermi að taka við keflinu af þessum frábæru valkyrjum.

Ég trúi að kórsystur mínar og stjórnandinn okkar taki undir með mér þegar ég segi:

TAKK, ELSKU JÓRUR. ÞIÐ VORU MAGNAÐAR !!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband