22.8.2010 | 22:52
ÉG DÓ
úr leiðindum í dag.
Ég skrapp ásamt dætrum mínum í bakarí í bænum og við vorum allar nokkuð vel stemmdar þegar við komum inn. En á því varð snarlega breyting þegar tvær ungar stúlkur birtust innan við afgreiðsluborðið og hér um bil spurðu hvað okkur vanhagaði um. Já, ég skrifa hér um bil,því að ég er ekki viss um að þær hafi yrt á okkur við komuna. Hins vegar mættum við raunalegu augnaráði beggja og ég hafði það á tilfinningunni að miklar hörmungar hefðu gengið yfir í lífi þeirra. Við nánari athugun fannst mér líklegra að þeim leiddist gífurlega í vinnunni og hefðu gjarnan viljað vera staddar annars staðar. Þegar ég sagði þessum lífsleiðu stúlkum hvað ég ætlaði að kaupa, fékk ég næstum því samviskubit yfir að vera að troða mér svona inn í líf þeirra, en ég held að þær hafi verið á lífi. Jú, það hlýtur að vera, því að ég fékk stuttaraleg svör við sumu sem ég sagði. Fátt var í boði, enda klukkan að verða tvö og engin ástæða til að eiga brauð alveg fram að lokun. Það er ekki sök þessara tveggja stúlkna og eftir á að hyggja var það kannski vöruúrvalið sem fór svona með geð þeirra. En víst er, að okkur létti við að komast út úr bakaríinu og ég held að innan við afgreiðsluborðið hafi sombíunum tveimur létt meira.
Athugasemdir
Tókstu nokkuð eftir því hvort að það hafi verið til nýbakaðir Ömmusnúðar : ?
Númi (IP-tala skráð) 22.8.2010 kl. 23:24
Nei, Númi. Þegar maður kemur í sum bakarí á sunnudegi klukkan tvö og opið er til fjögur, kemst maður mjög vel hjá því að sjá nokkuð bitastætt. Þarna voru reyndar nokkrir eigulegir snúðar með glassúr, en ég var bara ekki á höttunum eftir þeim.
Anna Dóra Gunnarsdóttir, 23.8.2010 kl. 23:20
Málið er að þetta er ekkert ýkt hjá þér mamma, heldur nákvæmlega eins og þær voru. Ótrúlegt hvernig svona fólk fær vinnu í afgreiðslustörfum!! Þetta varð allavega til þess að ég hef engan áhuga á að versla aftur þarna. Þetta var heldur ekkert í fyrsta sinn sem afgreiðslan í þessu bakaríi er léleg.
Katrín Eiríksdóttir (IP-tala skráð) 31.8.2010 kl. 22:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.